Háskólinn í Reykjavík

Háskólinn í Reykjavík

Eitt af mörgum stórum verkefnum sem leysa þurfti við byggingu Háskólans í Reykjavík var hönnun lýsingar og umfangsmikils stjórnkerfis alls skólahússins. Hver kennslustofa og salur hefur forritað ljósastýrikerfi sem stýrir einnig ýmsum öðrum kerfum svo sem gluggatjaldakerfi og gluggakerfi og vinnur með hljóðkerfi, sýningartjaldi og sýningarvél. Þá hefur miðlægur ljósnemi á þaki háskólans áhrif á stýringu á gluggatjöldum og ljós-magni í öllu húsinu.

Verkís hafði umsjón með hönnun þessa mikla verkefnis. Í skólahúsinu er notast við dagsbirtustýringu en rannsóknir sýna að dagsbirta hefur gríðarleg áhrif á heilsu, vellíðan og snerpu manna. Rannsóknir sem byggt var á sýndu að stress og kvartanir aukast mikið ef starfsmenn hafa ekki nægan aðgang að dagsbirtu. Auk þess næst talsverður orkusparnaður ef ljós stjórnast eftir dagsbirtu. Hönnun byggingarinnar gerir það kleift að nýta dagsbirtuna sem best. Dæmi um virkni er t.d. að birtunemi skynjar ljós í viðkomandi rými en getur ekki lesið önnur atriði svo sem skýjafar og stöðu sólar og skynjað þannig hvort draga þurfi tjöld fyrir glugga.

Í byggingu á borð við HR er gerð krafa um að sett sé upp neyðarlýsingarkerfi, þannig að ef straumur fer af húsinu þá séu flóttaleiðir upplýstar sem og stór opin svæði þar sem fólk kemur saman. Í HR er miðlægt neyðarlýsingarkerfi, sem þýðir að varaafl kemur frá miðlægum rafhlöðum. Hluti af almennu lýsingunni er síðan tengdur við kerfið þannig að ekki þurfti að fjárfesta í sérstökum neyðarlýsingarlömpum í byggingunni.

Verkefnið var gríðarlega umfangsmikið og kom það í hlut Reykjafells og Zumtobel að útvega lampa og stýringar til að uppfylla kröfur verkkaupa. Þetta fól meðal annars í sér að hanna nýja gerð af flúrlömpum sem féll inn í sérhannaða loftaklæðningu skólans. Ljósastýrikerfi og neyðarlýsing frá Zumtobel var innleidd í alla bygginguna og var starfsfólk Háskólans þjálfað í rekstri kerfisins af framleiðandanum Zumtobel. Rafmiðlun ehf sá um uppsetningu búnaðarins.